Hrönn Valentínusdóttir

Ég er að gefa út mína fyrstu barnabók. Hún heitir „Þegar litla systir kom í heiminn“ og fjallar um reynslu og líðan drengs sem er að fara að eignast systkini, hræðslu og ótta barnsins við að vera ekki lengur yngsta eða eina barnið.

Ég er leikskólakennari/leikskólastjóri og hef unnið með börnum í 44 ár. Einn af mínum draumum var að skrifa barnabók um tilfinningar sem börn eru að fara í gegnum.

Eitt af mikilvægum samfélagsverkefnum okkar allra er að hlúa vel að börnunum og minnka líkurnar fyrir kvíða og auka öryggi hjá börnum.

Börn sem eru að fara í gegnum breytingar á tilveru sinni og nýjar aðstæður geta mætt miklum áskorunum. Slíkar breytingar geta haft mikil áhrif á líf þeirra.

Ég tel mikilvægt að hlúa vel að líðan barna við þær aðstæður, hjálpa þeim og undirbúa þau vel fyrir væntanlegar breytingar.

Ég er höfundur bókarinnar og amma barnsins sem er sögupersónan. Ég tel  að þessi reynsla, líðan barnsins, geti hjálpað öðrum börnunum foreldrum/forráðamönnum í svipaðri stöðu. Sagan er unnin með það í huga að foreldrar eða forráðamenn og kennarar geti stuðst við bókina sem hjálparbók til þess að undirbúa systkini á öllum aldri fyrir þær breytingar sem eru í vændum.

Spurningar fylgja með bókunum sem vekja til umhugsunar og umræðna. Spurningarnar eru flokkaðar þannig að hverri opnu fylgja spurningar sem varða efni opnunnar.

Bókin nýtist öllum börnum á hvaða aldri sem er.

Yndislega hjartnæm bók þar sem höfundurinn skyggnist inn í hugarheim barns sem er nýbúið að eignast lítið systkini. Hann segir frá og sýnir okkur á einlægan og einfaldan hátt hvernig barnshugurinn getur verið og hvaða tilfinningar og hugsanir koma mögulega upp við það að eignast systkini. Bókin getur einnig höfðað til ungra barna sem eiga ekki systkini þar sem á hverri opnu eru skemmtilegar og litríkar myndir. Dóttir mín sem er 1,5 árs og á ekki systkini, finnst mjög gaman að fletta í gegnum bókina. Hún skoðar myndirnar og pælir m.a í ömmunni, stráknum sem fer að gráta og böngsunum hans. Þetta er tímalaus bók sem allir foreldrar myndu njóta góðs af að eiga.
Halldóra Rún Bergmann